Birgjar hafa aðgang að sérstökum þjónustuvef sem er í stöðugri þróun.
Við leggjum áherslu á góð tengsl og samvinnu við birgja og þjónustuaðila. Við gætum jafnræðis í samskiptum og við val og dreifingu á vörum. Öflug rafræn samskipti og birgjavefur bæta þjónustu og upplýsingaflæði.
Allir sem hafa leyfi til innflutnings áfengis geta sótt um að vörur þeirra fari í sölu í Vínbúðir. Áður en viðskipti geta hafist, þurfa birgjar að gera stofnsamning við ÁTVR. Samningurinn tekur til allra vörukaupa frá birgjum og veitir jafnframt aðgang að þjónustuvef. Jafnframt kveður samningurinn á um réttarstöðu aðila á grundvelli reglugerðar um vöruval, innkaup og dreifingu ÁTVR á áfengi (Nr. 1106/2015).
Á þjónustuvef hafa birgjar góða yfirsýn. Þeir geta séð stöðu umsókna, nálgast söluskýrslur og framlegðarskrá auk þess sem birtar eru almennar fréttir sem snúa að samskiptum við birgja. Árlega er framkvæmd viðhorfskönnun meðal birgja til að fá fram skoðanir þeirra á ýmsum þáttum. Þar kemur fram að 80% birgja eru ánægðir með birgjavefinn, 7% eru óánægðir.
Á heildina litið eru birgjar frekar ánægðir með þjónustuna, 66% eru mjög eða frekar ánægðir en 18% eru óánægðir. Stöðugt er leitað leiða til að bæta þjónustu við birgja og eru ábendingar í könnuninni rýndar með það að markmiði að bæta samskipti og upplýsingagjöf.
Birgjar hafa aðgang að sérstökum þjónustuvef sem er í stöðugri þróun.