Inngangur
Formáli forstjóra
Inngangur
Formáli forstjóra

Frá forstjóra

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins átti hundrað ára starfsafmæli á árinu 2022. Venja er að miða stofndaginn við 3. febrúar þegar fyrsti forstjórinn tók til starfa. Í tilefni afmælisins er ágætt að rifja upp upphaf og þróun ríkisrekinna áfengisverslana og helstu ástæður fyrir því að þeim var komið á fót á sínum tíma. Þeim sem vilja kynna sér sögu ÁTVR sérstaklega er bent á bókina um sögu ÁTVR en hún er aðgengileg á bókasöfnum og vef ÁTVR.

Áfengi hefur lengi verið hluti af mannlegu samfélagi

Það að komast í vímu af einhverju tagi hefur tíðkast frá örófi alda. Á síðari tímum hafa menn í vestrænum samfélögum verið sérstaklega duglegir að fá sér í staupinu og Evrópubúar eiga það vafasama heimsmet að drekka mest allra af áfengi.

Á miðöldum var bjór eða svokallaður mjöður algengur. Þó svo að mikið hafi verið drukkið má gera að því skóna að menn hafi verið tiltölulega friðsamir miðað við það sem á eftir kom þegar brenndu drykkirnir komu til sögunnar. Þegar sterka áfengið fór að berast til norðurslóða og íbúarnir lærðu að eima sjálfir jókst neyslan verulega. Oft er talað um brennivínsbeltið eða vodkabeltið í þessu sambandi en það liggur eins og keðja um norðurhluta jarðarinnar. Líklega hefur íbúum á norðurslóðum þótt gott að fá hita í kroppinn um stundarsakir til þess að gleyma erfiðum lífsskilyrðum. Erfitt er fyrir nútímamanninn að gera sér í hugarlund hversu alvarlegt ástandið var á þessum tíma vegna ofneyslu áfengis. Mikilli neyslu fylgdi fjöldi alvarlegra vandamála, andleg, félagsleg og líkamleg. Stjórnvöld víða um heim sáu að ekki var hægt að búa við óbreytt ástand og gripu þau til ýmissa ráðstafana til þess að stemma stigu við neyslunni. Sum lönd lokuðu jafnvel alveg á söluna um tíma og er talað um bannárin í því sambandi. Bandaríkin voru þar framarlega í flokki.

Þegar sterka áfengið fór að berast til norðurslóða og íbúarnir lærðu að eima sjálfir jókst neyslan verulega.

Áfengisbann leysti ekki áfengisvandann

Um aldamótin 1900 og fram á tuttugustu öldina var áfengisneyslan í Bandaríkjunum komin í hæstu hæðir með þeirri ógæfu sem slíkri neyslu fylgdi. Sjálfri stjórnarskránni var þá breytt þannig að framleiðsla, dreifing og sala áfengis til almennings var bönnuð í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Bannið tók gildi árið 1920 og stóð í þrettán ár. Þá var stjórnarskránni breytt aftur og áfengissalan leyfð á ný. Vissulega dró verulega úr áfengisneyslu á bannárunum en ýmis önnur vandamál komu upp. Nægir að nefna nafnið Al Capone til þess að flestir átti sig á því hvað tók við. Capone þessi var umsvifamikill glæpamaður sem náði að byggja upp mikið veldi með ólöglegri áfengissölu, en salan blómstraði á bannárunum og mikið var um skipulagða glæpastarfsemi í kringum hana.

Kanadamenn misstu tökin á áfengisneyslunni seint á 19. öldinni og bannárin héldu innreið sína þar líka. Bannið varð þó aldrei eins strangt og í Bandaríkjunum. Þeir náðu vissulega árangri við að ná niður neyslunni en önnur óáran kom upp á yfirborðið svipað og í Bandaríkjunum. Kanadamenn leyfðu þó áfram framleiðslu á áfengi til útflutnings og orsakaði það meðal annars heilmikið smygl til Bandaríkjanna.

Ísland, Noregur, Svíþjóð og Finnland eru í vodkabeltinu. Auk Norðurlandanna eru þar einnig m.a. baltnesku löndin, Pólland og Rússland. Aðstæður voru að mörgu leyti svipaðar í Bandaríkjunum og Kanada. Almenningur hafði misst tökin á neyslunni og vandamálin yfirþyrmandi. Í þessum löndum héldu bannárin líka innreið sína, þó með mismunandi hætti. Sums staðar var allsherjarbann sett á meðan annars staðar var látið duga að setja miklar skorður við áfengissöluna.

Reynsla bannáranna leiddi í ljós að bann leysti ekki áfengisvandann því það skapaði fleiri vandamál en það leysti. Einhvern veginn varð samt að finna heppilega lausn á sölu áfengis með ábyrgum hætti án þess að allt færi í óefni aftur.

Upphaf ríkisrekinna áfengisverslana

Í Bandaríkjunum kom fram á sjónarsviðið umsvifamikill athafnamaður að nafni John D. Rockefeller. Rockefeller þessi átti velgengni að fagna í viðskiptalífinu og byggði hann upp risafyrirtæki á heimsvísu. Hann var framsýnn og einn af aðal talsmönnum frjálsrar samkeppni þess tíma. Hann var bindindismaður og var vel ljós skaðsemin sem ofneysla áfengis veldur. Hann skildi líka mikilvægi einkarekstrar og hvað það er sem drífur einkareksturinn áfram. Það er magnað að Rockefeller var strax þeirrar skoðunar að sala á áfengi og einkarekstur fara ekki vel saman. Einkarekstur, samkeppni og markaðsöflin eru einfaldlega of öflug verkfæri fyrir áfengissöluna. Eða með orðum Johns D. Rockefeller sjálfs:

„Aðeins þegar hagnaðarhvötinni hefur verið eytt er von til þess að hægt sé stjórna áfengissölunni til hagsbóta fyrir sómasamlegt samfélag. Allar aðrar leiðir eru yfirklór og dæmdar til að mistakast. Á þetta þarf að leggja ofuráherslu.“

Textinn er bein tilvitnun úr formála bókarinnar „Toward Liquor Control“, sem gefin var út árið 1933.

Það er magnað að Rockefeller var strax þeirrar skoðunar að sala á áfengi og einkarekstur fara ekki vel saman.

Skoðun Rockefellers var að drifkraftur sífellt aukins hagnaðar reki einstaklinga áfram í að leita stöðugt leiða til þess að auka sölu og þar með bæta sinn hag. Þá væri betra að vera með sérstök fyrirtæki í eigu ríkisins sem hefðu það hlutverk að flytja inn, selja og dreifa áfengi til almennings. Starfsfólkið væri ríkisstarfsmenn á föstum launum sem hefði engan persónulegan hag af því að auka söluna. Samkeppni í áfengissölu væri þannig útilokuð og þar með yrði minna áfengi selt. Einnig myndi allur hagnaður af áfengissölunni renna til ríkjanna sjálfra og þar með fengju þau fé til þess að standa straum af samfélagslegum kostnaði sem óhjákvæmilega fylgdi áfengisneyslunni. Segja má að hugmyndafræði Rockefellers hafi lagt grunninn að starfsemi ríkisrekinna áfengisverslana.

Eftir bannárin í Bandaríkjunum og Kanada settu ríkin upp hvert sitt kerfi fyrir sölu á áfengi. Mörg fóru þá leið að koma á fót leyfisskyldum verslunum í einkarekstri meðan önnur ákváðu að salan skyldi alfarið vera í höndum ríkisins. Alls voru það 18 ríki af 50 í Bandaríkjunum sem ákváðu að ríkið skyldi sjá um áfengissöluna og öll fylkin 13 í Kanada tóku upp svipað kerfi.

Ríkiseinkasölur voru settar upp víðar, t.d. í Rússlandi, Íslandi, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Flestar starfa ennþá og Færeyjar bættust í hópinn á síðari árum. Í dag, rúmlega hundrað árum síðar, er kerfið að mestu leyti enn til staðar. Víða á norðurlöndum og í Bandaríkjunum og Kanada lifa ríkisreknar áfengiseinkasölur góðu lífi.

Lög um einkasölu áfengis á Íslandi

Á síðari áratugum hefur þróun einkasalanna farið í mismunandi áttir. Norrænu löndin leggja höfuðáherslu á lýðheilsusjónarmið og samfélagslega ábyrgð en vestanhafs er meiri áhersla lögð á að afla fjár fyrir ríkissjóði.

Á Íslandi voru lög um einkasölu ríkisins á áfengi samþykkt á Alþingi árið 1921 og tóku þau gildi 1. janúar árið 1922. Lögin veittu ríkisstjórninni og henni einni heimild til að flytja inn og selja áfengi með meira en 2,25% af vínanda. Í framhaldinu var Áfengisverslun ríkisins, ÁVR, sett á laggirnar. Venjan er að miða við þriðja febrúar árið 1922 sem stofndag en þann dag tók fyrsti forstjóri verslunarinnar, P. I. Mogensen, til starfa. Fyrsta áfengisverslunin opnaði þann 29. júní sama ár í Reykjavík. Fljótlega voru áfengisverslanir opnaðar á öllum þéttbýlisstöðum landsins með kaupstaðaréttindi, þ.e. í Hafnarfirði, Ísafirði, Akureyri, Siglufirði, Seyðisfirði og Vestmannaeyjum.

Eins merkilega og það kann að hljóma voru fyrstu vínbúðirnar í eigu einkaaðila. Ríkið sá um innflutning, verðlagningu, dreifingu og eftirlit en einkaaðilar sáu um búðirnar sjálfar og afhendingu vörunnar til viðskiptavina. Í upphafi voru einungis seld spænsk vín í verslununum en smám saman var vöruúrvalið aukið. Sala á sterku áfengi var áfram bönnuð. Það var ekki fyrr en árið 1935 sem lögunum um áfengissöluna var breytt og sala á sterku áfengi leyfð. Næsti stóri áfangi í sögu ÁVR átti sér stað árið 1961 en þá var rekstur ÁVR sameinaður við Tóbaksverslun ríkisins og heitir verslunin eftir það Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins eða ÁTVR.

Formáli 365 ÁFE 040 5-6_2000x1306

Ríkisreknar áfengiseinkasölur innan Evrópusambandsins

Þegar kom að því að norrænu löndin fóru að huga að inngöngu í Evrópusambandið urðu miklar umræður um framtíð ríkiseinkasalanna en grunnstoðir Evrópusambandsins eru frjálst flæði á vöru og þjónustu ásamt frelsi í viðskiptum. Það kom mörgum á óvart að þegar Svíar gengu í sambandið var samþykkt að þeir fengju að halda áfengiseinkasölunni. Sama var upp á teningnum þegar Finnar samþykktu aðild. Evrópusambandið viðurkenndi þannig að aðildarlöndin gátu látið lýðheilsu og almannaheill ganga fyrir viðskiptahagsmunum einkafyrirtækja.

Ekki líkaði öllum niðurstaðan og fljótlega var látið reyna á ákvörðunina fyrir Evrópudómstólnum. Eftir töluverð málaferli varð niðurstaða Evrópudómstólsins sú að rekstur á ríkisreknum áfengiseinkasölum stæðist lög Evrópusambandsins. Skilyrði var sett að hálfu dómstólsins að ríkin mættu eingöngu vera með einkaleyfi á að selja áfengi í smásölu og ekki stunda aðra starfsemi. Dómstóllinn kvað þannig upp með það að ef ríkiseinkasölurnar væru grundvallaðar á lýðheilsu og almannaheill og tilgangurinn með rekstri þeirra væri að takmarka skaðann sem ofneysla áfengis veldur í samfélaginu þá samrýmdist rekstur þeirra lögum ESB. Í framhaldinu hættu einkasölurnar að mestu annarri starfsemi eins og framleiðslu, innflutningi og heildsölu og einskorðuðu sig við smásöluna. Jafnframt var skattaumhverfinu breytt þannig að áfengisskattar eða gjöld voru aðskilin frá rekstri fyrirtækjanna. Litið var svo á að með þeirri breytingu ætti eigandinn, þ.e. ríkið, að fá eðlilegar tekjur af rekstrinum en ekki að litið sé á þau eins og mjólkurkýr fyrir ríkissjóði landanna.

Niðurstaða dómstólsins olli miklum breytingum á rekstri verslananna og var þeim komið til nútímahorfs á skömmum tíma. Í mörg ár á eftir var stöðugt látið reyna á ýmis álitaefni fyrir dómstólnum en á endanum var hugmyndafræðin á bak við ríkiseinkasölurnar um bætta lýðheilsu og almannaheill viðurkennd sem lögmæt leið stjórnvalda til þess að draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu og kostnaði samfélagsins.

Fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi

Á Íslandi hefur ÁTVR starfað óslitið frá stofndegi, fyrst sem ÁVR og síðar sem ÁTVR. Stjórn var yfir versluninni um árabil en hún var lögð niður árið 2011. Mikil umskipti hafa orðið á rekstri ÁTVR á síðustu árum og áratugum. Áður var verslunin gamaldags og íhaldssöm ríkisstofnun með fáum verslunum, litlu vöruúrvali, afgreiðslu yfir borð og starfsfólki í einkennisklæðum sem tóku mið af fatnaði lögreglu og tollvarða. Í dag er ÁTVR margverðlaunað þjónustufyrirtæki sem leggur mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð og góða þjónustu og er verslunin í hópi bestu þjónustufyrirtækja landsins. Útilokað er að ná slíkum árangri nema með úrvals starfsfólki. Gæfa ÁTVR er einmitt sú að til verslunarinnar hefur valist framúrskarandi hópur starfsfólks sem leggur sig fram til hins ítrasta við að ná árangri í sínum störfum.

Undanfarna áratugi hefur jafnan verið mikil umræða um framtíð ÁTVR og fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi. Sú umræða hefur skilað sér inn á Alþingi og mörg frumvörp og þingsályktunartillögur hafa verið lagðar fram um breytingu á einkaleyfinu sem ÁTVR byggir starfsemi sína á. Á síðustu áratugum hafa alls sautján frumvörp og þrjár þingsályktunartillögur verið lagðar fram. Málin hafa verið ólík og gengið mislangt. Fyrstu frumvörpin gengu út á að ÁTVR framseldi einkaleyfi sitt til reksturs vínbúða til einkaaðila. Næst kom frumvarp um að leyfa sölu á áfengi með minna en 22% vínandastyrk í almennum verslunum. Það var lagt fram sex sinnum í lítið breyttri mynd. Þar á eftir kom frumvarp um að leggja ÁTVR niður og leyfa sölu alls áfengis í matvöruverslunum, það var lagt fram þrisvar án mikilla breytinga. Árið 2017 til 2018 kom fram frumvarp um að afnema einkaleyfi ÁTVR og leyfa sölu áfengis í sérverslunum. Það var lagt fram tvisvar. Ekkert af ofangreindum frumvörpum hlaut brautargengi. Líklegt er að umræðan um fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi haldi áfram næstu ár og áratugi.

Ég færi samstarfsfólki mínu í gegnum tíðina bestu þakkir fyrir að koma ÁTVR í hóp bestu þjónustufyrirtækja landsins og þakka samstarfið á liðnum árum og áratugum.

Ívar J. Arndal

Í dag er ÁTVR margverðlaunað þjónustufyrirtæki sem leggur mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð og góða þjónustu og er verslunin í hópi bestu þjónustufyrirtækja landsins.

Heildarstefna
Inngangur
Heildarstefna

Hlutverk

Að framfylgja stefnu stjórnvalda um bætta lýðheilsu og samfélagslega ábyrgð í áfengis- og tóbaksmálum í sátt við samfélagið.

Stefna

Að vera í hópi bestu þjónustufyrirtækja landsins og fyrirmynd á sviði samfélagsábyrgðar.

Við veitum framúrskarandi og fjölbreytta þjónustu með jákvæðu viðmóti, virðingu og faglegri ráðgjöf. Það er okkur hjartans mál að mæta þörfum og væntingum viðskiptavina með fagmennsku og fræðandi upplýsingum.

Upplifun – Vöruúrval – Traust

Frábært starfsfólk er grunnur að góðum árangri. Við viljum eftirsóknarverðan vinnustað þar sem samskipti einkennast af lipurð, þekkingu og ábyrgð. Áhersla er lögð á að starfsfólk geti vaxið í starfi og aflað sér þekkingar sem stuðlar að starfsánægju og framúrskarandi þjónustu.

Starfsumhverfi – Þekking – Liðsheild

Fagmennska, hagkvæmni og ábyrg vinnubrögð einkenna starfsemina. Lögð er áhersla á mælanleg markmið til að tryggja árangur á öllum sviðum. Við fylgjumst með og tileinkum okkur nýjungar til framfara.

Ábyrgð – Fagmennska – Nýsköpun

Við leggjum áherslu á góð tengsl og samvinnu við birgja og þjónustuaðila. Við gætum jafnræðis í samskiptum og við val og dreifingu á vörum. Öflug rafræn samskipti og birgjavefur bæta þjónustu og upplýsingaflæði.

Jafnræði – Samtal – Upplýsingar

Við erum fyrirmynd í samfélagsábyrgð og þjónustu. Við stuðlum að sátt og jákvæðu orðspori um hlutverk okkar. Við berum virðingu fyrir umhverfinu og leitum leiða til að lágmarka vistspor okkar.

Sjálfbærni – Samfélagið – Ímynd

ÁTVR vinnur eftir 15 ÁHERSLUM sem styðja við fimm meginþætti starfseminnar.

Stefnan gildir frá 1. janúar 2020

Ný heildarstefna tók gildi 1. janúar 2020, hún byggir á fimm meginþáttum starfseminnar: þjónustu, starfsfólki, starfsháttum, birgjum og samfélagi. Fyrir meginþættina hafa 15 áherslur verið skilgreindar og út frá þeim eru aðgerðaáætlanir og mælikvarðar unnir. Upphaflega var stefnunni ætlað að gilda í þrjú ár en vegna óvenjulegra aðstæðna var ákveðið að framlengja gildistökuna um eitt ár, því mun gildistími stefnunnar vera til ársloka 2023.

ÁTVR hefur sett sér stuðningsstefnur í samræmi við heildarstefnu.

Framkvæmdaráð
Inngangur
Framkvæmdaráð
Ívar J. Arndal
Forstjóri
Sigrún Ósk Sigurðardóttir
Aðstoðarforstjóri
Sveinn Víkingur Árnason
Framkvæmdastjóri
Kristján M. Ólafsson
Framkvæmdastjóri
Skipulag og stjórnun
Inngangur
Skipulag og stjórnun

ÁTVR starfar eftir lögum nr. 86/2011 um verslun með áfengi og tóbak. Lögin gilda um smásölu á áfengi og heildsölu á tóbaki. Markmið laganna er þríþætt: Skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð. Takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu. Vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum. Fjármála- og efnahagsráðherra skipar forstjóra sem fer með stjórn stofnunarinnar og ber ábyrgð á daglegum rekstri.

Skipuritið gildir frá 1. ágúst 2020

Skipuritið sýnir starfsemi fyrirtækisins á myndrænan hátt. Meginsviðin eru tvö: vörudreifing og heildsala tóbaks, og sölu- og þjónustusvið. Stoðsviðin eru fjögur: fjárhagssvið, mannauðs- og starfsþróunarsvið, rekstrarsvið og vörusvið. Þeim er ætlað að styðja meginsviðin tvö. Aðstoðarforstjóri ber ábyrgð á samfélagslegri ábyrgð sem er hluti af fjárhagssviði.

Til að tryggja skilvirka stjórnun, funda forstjóri og framkvæmdastjórar að jafnaði vikulega. Reglulegir starfsmannafundir starfsstöðva og fundir með stjórnendum Vínbúða komust í fyrra horf eftir heimsfaraldurinn. Áfram er reynt að nýta fjarfundarbúnað eins og kostur er til að spara ferðatíma, en einnig til að auka þátttöku starfsstöðva, sérstaklega á landsbyggðinni. Workplace gegnir mikilvægu hlutverki í miðlun upplýsinga bæði þeim sem snúa beint að vinnu og verkefnum, en einnig að fjölmörgum öðrum þáttum svo sem fræðslu og félagslífi.

Árs- og samfélagsskýrsla
Inngangur
Árs- og samfélagsskýrsla

Starfsemi ÁTVR er eingöngu á Íslandi. Árs- og samfélagsskýrslan nær yfir alla starfsemina og gildir fyrir árið 2022. Ísland er skilgreint sem nærsamfélag, allir stjórnendur eru íslenskir og búsettir á landinu. Skýrslan er gefin út á rafrænu formi og birt á www.vinbudin.is. Hægt er að prenta skýrsluna út í heild eða velja einstaka hluta hennar til útprentunar.

Til að leggja áherslu á réttmæta og gagnsæja upplýsingagjöf hefur samfélagsskýrslan verið rýnd og staðfest af alþjóðlega endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte, samkvæmt alþjóðlega staðlinum ISEA 3000 (revised) með takmarkaðri vissu (e. limited assurance). Í GRI-skýrslu má sjá staðfestingu frá Deloitte.

Við gerð skýrslunnar er fylgt Global Reporting Initiative (GRI) Standards. Tilgangurinn er að skrá og miðla með gagnsæjum hætti upplýsingum sem tengdar eru samfélagslegri ábyrgð. Í skýrslunni er gerð grein fyrir 36 mælikvörðum. Hægt er að nálgast heildaryfirlit og mælikvarða í sjálfbærnihluta skýrslunnar. Gerð er grein fyrir mælikvörðum í texta skýrslunnar þar sem það á við.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun tóku gildi í ársbyrjun 2016. Þau eru framkvæmdaáætlun í þágu mannkyns, jarðar og hagsældar. Heimsmarkmiðin eru 17 talsins og þeim fylgja 169 undirmarkmið. Mælt er með því að fyrirtæki og stofnanir innleiði markmiðin í starfsemi sína. ÁTVR hefur unnið með sex áherslumarkmið: heilsu og vellíðan, jafnrétti kynjanna, góða atvinnu og hagvöxt, ábyrga neyslu og framleiðslu, aðgerðir í loftlagsmálum og samvinnu um markmiðin. Í sérstöku yfirliti í skýrslunni er gerð grein fyrir einstökum áherslum.

Amfori eru leiðandi samtök í heimi viðskipta þar sem markmiðið er að tryggja að öll viðskipti skapi félagslegan, umhverfislegan og fjárhagslegan ávinning fyrir alla. Áfengiseinkasölur á Norðurlöndunum, þar með talið ÁTVR, eru aðilar að amfori. Siðareglur amfori eru lagðar til grundvallar í norræna samstarfinu (NAM – Nordic alcahol monopoly). Með aðild vilja einkasölurnar stuðla að aukinni sjálfbærni í aðfangakeðjunni og tryggja, eins og kostur er, að allar vörur sem boðnar eru til sölu séu framleiddar í samræmi við siðareglur. Lögð hefur verið áhersla á formlegt og aukið samstarf amfori og NAM. Covid hafði veruleg áhrif á starfsemi amfori en á sama tíma varð jákvæð þróun í framleiðslu á rafrænni fræðslu. Markmið allra námskeiða og úttekta sem framkvæmdar eru, er að tryggja að siðareglum sé framfylgt í aðfangakeðjunni um leið og leitað er leiða til að gera betur.

Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni hefur það hlutverk að efla samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og hvetja þau til að tileinka sér samfélagslega ábyrga starfshætti og stuðla að aukinni sjálfbærni. ÁTVR er meðlimur í Festu og tekur virkan þátt í starfsemi félagsins.

Staðfesting óháðs endurskoðanda

Ráðgjafafyrirtækið Deloitte var fengið til að veita álit á ófjárhagslegri upplýsingagjöf í árs-og sjálfbærniskýrslu. Verkefnið fól í sér að kanna með gagnaskoðunum, viðtölum og úrtaksprófunum hvort upplýsingar sem settar eru fram (með vísun GRI mælikvarða) eru réttar, með takmarkaðri vissu, og gefa út um það áritun í samræmi við staðal ISAE 3000. Skoða staðfestingu frá Deloitte.

Hagsmunaaðilar
Inngangur
Hagsmunaaðilar
Stefna ÁTVR er að vera í hópi bestu þjónustufyrirtækja landsins og fyrirmynd á sviði samfélagsábyrgðar.

Meginþættir heildarstefnunnar endurspegla helstu hagsmunaaðila. Þeir eru viðskiptavinir, mannauður, samfélag, eigandi og birgjar. Gerð er grein fyrir áherslum gagnvart einstökum hagsmunaaðilum, en allar miða þær að því að fylgja þeim áherslum sem eru i heildarstefnunni.

Sjálfbærnistjórnun
Inngangur
Sjálfbærnistjórnun
Markmið og mælikvarðar

Árlega er unnin aðgerðaáætlun á grundvelli heildarstefnu. Mælanleg markmið eru sett fyrir flesta þætti í rekstri og niðurstöður kynntar mánaðarlega, meðal annars í skorkortum Vínbúðanna. Öll skorkort eru aðgengileg stjórnendum auk fjölmargra annarra gagnlegra upplýsinga sem snúa að rekstrinum. Stöðugt er unnið að því að þróa upplýsingar og gögn ætluð stjórnendum til að auðvelda ákvarðanir, auka samvinnu og yfirsýn.

Sjálfbærnistjórnun

Í töflunni má sjá helstu markmið og mælikvarða flokkuð eftir hagsmunaaðilum með tilvísun í GRI mælikvarða og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Einnig er í töflunni tilvísun í siðareglur alþjóðasamtakanna amfori.